2. nóv. 2016

Leystu mig upp, bróðir, með auga þínu sem lokast aldrei
sem lítur bara út, sér ekkert, bara skímuna og sólspeglað vatnið
milli laufa 
í júlígrænkunni, undir tré
í bláu tágarkörfunni sem bar þig stóran 
þegar allt í kringum þig suðaði
og þú varst einsog hunangið 
ég sjálf í gulum kjól, dökkum
í trénu, sífellt dekkri gulum, skrækari, æpandi upp
en þögult, upp í trjátoppinn,
sigur, litli bróðir, yfir öllu
af þyngd kórónunnar
finn ég fyrir höfði sólarinnar

Katarina Frostenson – Ég sjálf í gulum kjól

Ég veit ekki hvort þetta er vel gert hjá mér. Frostenson er ekki beinlínis einföld í þýðingu. Ég þekki mikið af sænskum skáldum sem hafa hana í hávegum. Sjálfum finnast mér textar hennar mjög sjarmerandi og þessi afar fallegur, en það er ekki laust við að sjálfstraust mitt í sænskunni ráði ekki alveg við þessar skrítnu setningar, einsog eitthvað í mér kikni eða bugist. Mér finnst alltaf einsog ég sé að misskilja eitthvað og missa af einhverju. Sem er skrítið – það truflar mig ekkert á ensku að lesa brotna undarlega texta. En þá treysti ég líka enskunni minni betur. 

---

Ég sá tvo spekinga úr minni stétt ræða Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs á Facebook. Annar þeirra var miður sín að Frostenson væri ekki lengur jafn sæt og hún var þegar hún kom á bókmenntahátíð 1992 – hinn sagðist ekki lesa „skandinavískan litteratúr“, því hann væri svo gegnsýrður af pólitískri réttsýni. Þriðji nefndi svo annars staðar eitthvað um að sigurvegarahópurinn væri full einsleitur – fyrir utan Frostenson voru þetta allt karlar í svörtum jakkafötum. Mér fannst það eitthvað skakkt líka – það getur margt búið í svörtum jakkafötum, alls kyns usli. Það liggur við að svört jakkaföt séu alltaf dulbúningur. 

---

Stundum finnst mér einsog Trump sé löngu búinn að vinna, þótt það verði ekki kosið fyrren í dag. Fögnuður forheimskunnar vann. Tortóla vann á Íslandi. Glamour tímaritið hefur tilnefnt Bono sem konu ársins. Trump vinnur líka þótt Clinton vinni – það er sigur fyrir Trumpismann að það sé ekkert skárra í boði en þau tvö (þótt vissulega sé skárra ef hún vinnur). Mér finnst meira að segja að ég verði vitlausari sjálfur, dag frá degi, allt verði einu stigi heimskara frá augnabliki til augnabliks. 

---

Ég get heldur ekki gert upp við mig hvort ég drekk of lítið kaffi eða of mikið kaffi. 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli