4. nóv. 2016

Í gærkvöldi las ég upp með Johnny Rotten. Eða – hann las alls ekkert upp. Hann tók bara við spurningum úr sal og bullaði síðan. Þetta var samt áhugavert, Johnny Rotten er auðvitað mannkynssagan og þarna var hann að svara fyrir sig. Hann talaði merkilega vel um fólk, miðað við orðstírinn sem fer af honum. Sagðist sakna Sid. Sagðist meira að segja sakna Malcolm McClaren. Og virkaði innilegur, eins innilegur og manni er fært að vera í þessum aðstæðum. En svo var auðvitað einhver snertur af sorglega trúðnum þarna líka. Sérstaklega þegar hann setti upp Johnny Rotten prakkaraglottið sitt – eða kom með erkitýpíska Johnny svarið (d. „Hver er eftirlætis tónlistarmaðurinn þinn?“ „ÉG!“). Svona einsog hann væri að leika sjálfan sig frekar en að vera hann sjálfur.

Ég las tvö ljóð úr Óratorreki. Það gekk ágætlega en salurinn var eiginlega tómur. Og það er talsvert þægilegra að lesa fyrir fáa ef þeir eru í aðeins minni sal. Þetta var líka svona síðast þegar ég las, fyrir tveimur árum. Fyrsta klukkustundin í ljóðaherberginu er steindauð. Enda meikar meira sens að detta inn í upplestur þegar maður er búinn að fara á a.m.k. eina tónleika. Það fylltist svo allt þegar Rugl spilaði og var fullt þar til við fórum. Ég elti Ástu Fanneyju og impromptu hljómsveitina hennar upp á Kolabraut þar sem Ásta splæsti kampavíni á hersinguna.

Saga Nýhils: Níunda brot brotabrots brotabrotabrots

Ég skrifaði næstum öll ljóðin í Nihil Obstat fyrir sviðið í Versuchstation. Ég hafði lítið lesið upp fyrir þann tíma og aldrei svona reglulega. Og varð strax mjög upptekinn af sviðinu sem slíku, sviðinu sem verkfæri í ljóðlist, meðal annars til að transgressera – ganga of langt. Ekki að það hafi verið auðvelt að sjokkera árið 2002, eða beinlínis tilgangurinn, heldur langaði mig að kanna rýmið einsog hvert annað myndlíkingarsvæði og skoða hvar lesandinn kannaðist við sig. Þegar maður er með lítinn hóp af fólki sem mætir alltaf er hægt að miða ljóðlínunum nákvæmlega á vissa einstaklinga – tala til skiptis við Hauk, Ásthildi, Núma, Danna, Söru og svo framvegis í kaosi sem erfitt er að hnýta saman öðruvísi en sem pólífónískt portrett. Þannig er Nihil Obstat full af línum sem sumir úr hópnum skildu en aðrir skildu alls ekki; mikið tilvísanir í leyndarmál, slúður og einkasamræður í hópnum. Þetta er auðvitað ekkert nýtt – bítskáldin, sem ég var frekar upptekinn af, gerðu mikið af því að ríða saman ljóðmál úr einkalegum upplifunum sínum. Það er líka eitthvað beinlínis rafurmagnað við að taka líf annarra til handargagns og lesa þau svo ofan í sama fólk – vitandi að vissir hlutir mega ekki skiljast. En svo var ég líka bara að leita í tungumálinu að hlutum sem stuðuðu sjálfan mig.

Mér leið (og líður) hins vegar ekki vel á sviði. Og ég las alltaf of hratt. Þegar ég spurði fólk (fyrir Berlínárið) hvernig upplesturinn hefði verið var svarið alltaf það sama: Þú verður að lesa hægar, gefa fólki smá tíma til að heyra orðin áður en þú ryðst áfram. Og þegar ég reyndi það varð ég enn stressaðri. Og beinlínis skalf. Fyrst byrjaði fóturinn á mér að skjálfa og þegar ég strammaði hann af með vöðvaafli byrjuðu hendurnar á mér að skjálfa – stundum svo mikið að ég gat varla lesið á blaðið sem ég hélt á. Þegar ég strammaði þær af byrjaði ég að stama. Í Berlín fór ég að snúa þessu við. Lesa hraðar og hærra og gefa algerlega skít í hvort fólk skildi hvað ég var að segja eða hafði tíma til þess að melta ljóðlínurnar. Ég hætti að nálgast upplesið ljóð einsog það væri einfaldlega flutningur á texta (nú er ég byrjaður að vinda ofan af þessu – og er að reyna að finna leiðir til þess að gera einmitt það, leiðir sem mér hugnast). Þegar ég hætti að halda aftur af mér hætti ég líka að vera jafn stressaður. Enn í dag líður mér best á sviði ef ég bara öskra viðstöðulaust (sem kemur fyrir). Þá er einsog taugaveiklunin eða feimnin eða hvað maður kallar það hafi einhverja eðlilega útgönguleið.

Saga Nýhils – tíunda brota brotabrots brotabrotabrots

Við rákum sjálf barinn á Versuchstation og innkoman þurfti helst að kovera leiguna. Ég man ekki hvað það var mikið, en einhvern tíma reyndum við að fá sendiráðið til að spotta okkur um þetta – sennilega var það svona 20 þúsund kall á núvirði – fyrir að halda mánaðarleg (meira og minna) íslensk menningarkvöld. En það var ekki séns. Engir peningar til, því miður. Sem okkur þótti alveg svolítið fyndið svar vegna þess að við fórum reglulega í partí í sendiráðinu – sem gestir múmara, sem voru þá iðulega plötusnúðar – og óráðsían í veisluhaldi fór ekkert framhjá okkur. Það var hægt að fljúga hálfu utanríkisráðuneytinu til Berlínar til þess að mæta á einhverjar hönnunarsýningu með drekkhlöðnum snittuborðum og léttvíni, en enginn áhugi á lifandi sjálfsprottinni menningu á svæðinu. Við vorum viðstöðulaust skítblankir (skuldum enn síðustu 3-4 mánuði í leigu á íbúðinni okkar; vorum eiginlega bornir út) og fannst þetta frekar súrt. En við nutum í sjálfu sér góðs af léttvínsbökkunum í sendiráðinu.

Ég man líka að einu sinni þegar einn kokteillinn var að klárast þá fór Danni út á svalir og náði í tvo eða þrjá kassa af bjór og gekk með þá beint út. Dyravörðurinn stöðvaði hann í dyrunum og spurði hvert í ósköpunum hann þættist ætla að fara með þetta og hann svaraði bara „út“ og var ekki spurður neins frekar. Danni virkar (og er alla jafna) svo solid náungi. Á dyraþrepinu fyrir utan tróðum við síðan bjórunum inn á okkur og fórum á einhvern bar – þar sem við drukkum okkur hauslaus og enduðum öll ber að ofan á dansgólfinu. Án þess að kaupa einn einasta bjór. Og svo stálum við líka fullt af Teletubbies grímum af veggjunum. Einsog gefur að skilja man ég samt óljóst eftir þessu.

Danni var líka sá sem oftast sá um barinn. Enda eina manneskjan í þessu fyllibyttubandalagi sem hafði yfir sér nokkra áru átorítets. Þetta átorítet notaði hann svo til þess að sannfæra fólk að það þyrfti mjög nauðsynlega að kaupa meiri bjór. Með þeim rökum annars vegar að við þyrftum að eiga fyrir leigunni – það var ekkert aflögu í heimilisbókhaldinu til að borga það ef barinn dekkaði það ekki – og hins vegar að hann væri að reyna að setja nýtt sölumet. Sem hann gerði iðulega (og varð svo tíðrætt um). Að minnsta kosti einu sinni var alveg sæmilegur afgangur af rekstri barsins, sem var áreiðanlega nýttur í að borga internetreikninginn svo við gætum uppfært Nýhilsíðuna (sem ég verð að segja frá síðar).

Undir lok vetrar var okkur tilkynnt að við gætum ekki haldið áfram á Versuchstation. Kvöldin urðu alltaf lengri, háværari og trylltari – það var búið að vara okkur nokkrum sinnum við – en þetta gekk víst á endanum of nærri nágrönnunum. Við fórum og skoðuðum einhvern bar sem átti að taka við en mig minnir að hann hafi verið eitthvað of hannaður – of mikið sitt eigið rými. Kosturinn við Versuchstation var hvað hún var auð – strípaður hvítmálaður kassi með stólum, litlu sviði og bar. Svo var líka veturinn eiginlega á enda og óvíst hvort mér væri stætt á að halda áfram að vera í Berlín, af fjárhagslegum ástæðum – ég hafði þraukað allan veturinn á þriggja mánaða námslánayfirdrætti, án þess að ná að klára það sem ég þurfti til þess að fá sjálf námslánin (sökum blöndu af trassaskap af minni hálfum, röngum upplýsingum frá LÍN og tregu kerfi í Þýskalandi). Í öllu falli ætluðum við Haukur báðir til Íslands yfir sumarið, hið minnsta.

Grímur – sem er kvikmyndagerðarmaður og af framsóknarættum – hafði meiri skilning á peningum heldur en við. Hann vissi meðal annars að þeir væru til og það væri hægt að sækja um þá. Sennilega hefðum við getað kríað út einhverja peninga fyrir Nýhilkvöldin í Berlín ef við hefðum gert það í gegnum rétta kanala, frekar en að fá bara betlifund í sendiráðinu. Það er ansi stór munur á þessum aldri – fyrir listamenn – hvort þeir skilji svona kerfi eða ekki, hvort þeir hafi aðgang að einhverri reynslu eða þekkingu kerfunum tengdum. Það er auðvelt að heltast úr lestinni einfaldlega vegna þess að maður áttar sig ekki á því hvernig neitt virkar.

Í öllu falli þá fékk Grímur – sem var í Prag um veturinn en kom reglulega í heimsókn til Berlínar – þá hugmynd að sækja um styrki til þess að túra landið með ljóðafyllerí. Þegar við Haukur komum síðan til landsins um vorið – tókum rútu til London og flugum heim; í London hafði Haukur þurft að skilja stóran hluta af hafurtaski sínu eftir, af því við áttum ekki fyrir yfirvigtinni og lentum í epískum erjum við flugvallarstarfsfólkið – var Grímur sem sagt búinn að redda fullt af peningum og tilkynnti okkur einfaldlega að nú þyrftum við að fylla tvo bíla af ljóðskáldum, hann væri búinn að bóka okkur í gigg um allt land.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli