11. okt. 2016

What they preach in Clark County is false.
In the air, we are only negation. Someone says,
Our seat cushions are also floatationdevices! And home is also a vacation spot
where potions are served hot and good and we fill
our noses with the stuff of life-sized plastic. Before takeoff
I watch the sun reflecting in the snow. 

Úr ljóðinu On Children, How I Hate Them And Want To Corrupt Them, How You Know I Hate Them, And What That Could Mean úr ljóðabókinni Other People's Comfort Keeps Me Up At Night eftir Morgan Parker. 

Ég á frekar erfitt með að keyra á hálfu tempói. Eða venjulegu tempói. Það er ekki bara eirðarleysi, mér líður beinlínis einsog ég verði allur sljór einhvern veginn ef ég er ekki að drífa mig. Ég hægi á mér og missi niður allt tempó, enda á að stara bara fram fyrir mig einsog uppvakningur. Þetta er eitthvað hákarlasyndróm. Sink or swim. Úr þessu þarf ég að bæta, annars enda ég bara útbrenndur.

Ég brenndi einu sinni úr bílvél – fyrir langalöngu. Þá var ég að keyra til Patreksfjarðar að hitta kærustuna mína. Sennilega hef ég verið átján ára. Ég var með tónlistina stillta svo hátt að ég tók ekkert eftir því þegar vélin byrjaði að djöflast. Lögreglan stöðvaði mig þegar ég kom keyrandi inn í bæinn og spurði hvað væri eiginlega í gangi með bílinn.

Það fer líka illa með mig að vera aftur á Facebook. Ég finn að maður verður smám saman átakafælnari og einhvern veginn hvumsa á samfélaginu. Það er eitt að takast á um pólitík – en síðan ég kom aftur hef ég verið afvinaður og fólk nákomið mér hefur dreift um mig óhróðri. Út af þessu fiskeldismáli, sem sagt, fyrst og fremst; og það best ég get enn einlæglega séð, að ósekju og í fullkominni hysteríu. Skrítnast er einmitt að lenda í þessu frá fólki sem maður hefur alls ekkert tekist á við.

Sennilega hangi ég á Facebook fram að kosningum. Nema ég geri það ekki.

Ég er líka að verða þreyttur á Íslandi. Ekki að búa á Íslandi heldur díla við Ísland. Ef maður fær borgað fyrir eitthvað, fær maður ekki borgað flug, ef maður fær borgað flug fær maður ekki borgaða gistingu. Maður fær sjaldan borgaðan taxta fyrir neitt. Og þetta er ekki spurning um smæð – miklu minni batterí í Svíþjóð haga sér ekki svona.

Yfirleitt er ég ekkert mjög bugaður fyrren á miðvikudögum. Mig óar við morgundeginum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli