25. okt. 2016

Háð er hollt.
Grínið gott.
Valdið vont.

Úr Litlu hugsanabókinni eftir Guðberg Bergsson.

Ég er flúinn að heiman. Kominn með skrifstofu úti í bæ fram í miðjan næsta mánuð. Út af myglunni, sem lagast ekkert, sama hvað ég geri. Versnar bara, ef eitthvað er.

Það eru nokkrir dagar í kosningar. Ég hef enn ekki gert upp við mig hvort ég kýs Vinstri-Græn, sem nýjustu upplýsingar herma að séu klámsjúk (gott ef ekki hreinlega kúkaklámsjúk), eða Pírata, sem eru byssuóðir gervistærðfræðingar. Kannski úllendúllendoffa ég bara.

Saga Nýhils: Áttunda brot brotabrots brotabrotabrots

2002 gaf Nýhil út þrjár bækur. Fyrst kom Heimsendapestir, sem ég hafði þegar fjallað um, en síðan Spegilmynd púpunnar: Greatest Shits eftir Hallvarð Ásgeirsson og þá heimspekiritið Aðilafræðin eftir Hauk Má Helgason.
ljóðabókin

Nei, nú slæ ég þessu upp og þá segir internetið að bók Varða hafi ekki komið fyrren 2003. Hugsanlega er það rétt. Það gæti líka verið að Aðilafræðin – sem var BA-ritgerð Hauks – hafi komið eftir áramótin líka. Maður man aldrei neitt.

Já, jú – 21. janúar, 2003, segir Tímarit.is.

Haukur fer svo í viðtal í febrúar í tilefni af því að hann hafði verið valin – ásamt alþjóðlegu einvalaliði – til þess að gera útvarpsleikrit fyrir BBC World. Þar kemur í fyrsta sinn nokkur opinber útskýring á Nýhil – ef frá er talinn vefurinn sem opnaði sennilega rétt fyrir áramót.

– Þú hefur einnig staðið fyrir ýmsum uppákomum, bókaútgáfu o.fl. í nafni Nýhil. Hvað er það? „Nýhil er félagsmiðstöð launbúddískra róttæklinga með aðalbækistöðvar í Berlín. Okkur þykir lífið alltof ágætt til að taka það mjög alvarlega. Eða taka systemin alvarlega; peningasystemið, vinnusystemið, velsæmissystemið. Það er auð- veldara að sjá þau utan frá þegar maður stendur raunverulega, landfræðilega, utan þeirra. Nýhil hefur hingað til staðið sig best sem bókaútgáfa, með þrjár útgefnar bækur og einn DVD-disk á síðasta hausti: Heimsendapestir, ljóðabók eftir Eirík Örn Norðdahl, Aðilafræðin er heimspekirit eftir mig og Draumar um Bin Laden leikrit eftir Steinar Braga. DVD-diskurinn geymir vídeólistaverk frá Halldóri Arnari Úlfarssyni, myndlistarnema í Helsinki og Reykjavík. Fleira er á leiðinni, t.d. erum við Grímur Hákonarson trúlega að fara að gera hvor sína stuttmyndina, undir merkjum Nýhils. Nýhilkvöldin sem við höfum haldið í Berlín og Reykjavík slá tempó í starfið, með mixi af upplestrum og tónlist frá vinum okkar.“ –
Draumar um Bin Laden kom að mig minnir aldrei út sem sjálfstætt verk en Áhyggjudúkkur hafði komið út hjá Bjarti þarna um jólin og við vorum í skýjunum yfir henni og í kjölfarið í talsverðum samskiptum við Steinar – sem urðu meðal annars til þess að ég skrifaði formála að leikritinu (og bætti við einhverjum texta, aðallega neðanmálsgreinum). Verkið var svo prentað í Af Stríði sem kom út snemma um haustið 2003.

Tveimur dögum fyrir viðtalið – 13. febrúar – birtist þessi tilkynning í horni í Morgunblaðinu:

Gunnar Þorri er Pétursson, bókmenntafræðingur, Ófeigur er Sigurðsson rithöfundur, Varði er áðurnefndur Hallvarður Ásgeirsson – sem síðar hefur aðallega einbeitt sér að tónsmíðum og gítarleik, Bjarni Delirium Klemenz er rithöfundur, Pétur Már trommaði síðar í Skátum, Stína er Kristín Eiríksdóttir og mér finnst sennilegt að Alli sé Aðalsteinn Jörundsson – sem í dag er þekktur sem AMFJ og er þekktari fyrir að vera „power noise musician“. Þetta er fyrsti viðburður Nýhils á Íslandi og einhvers staðar eru til upptökur af honum – en við í Berlín vorum augljóslega fjarri góðu gamni, a.m.k. fýsískt. Á listann vantar mann sem ég kann ekki frekari deili á en hann las þýðingar á leiðarvísum, meðal annars fyrir traktora, sem höfðu verið þýddir úr rússnesku. 

Já, ég fann þetta hérna í arkífunum. Fyrst traktoragaurinn. 



Haukur Már tók líka upp lestur á texta sem var spilaður af teipi – og Varði rímixaði þann texta og rímixið var líka spilað. 


Ég á líka upptökur af Hauki að lesa, eina af Gunnari Þorra og tvær í viðbót af Traktoragaurnum. En ég veit ekki alveg hvað er óhætt að birta hérna í leyfisleysi.

Myndin af Hauki er tekin í íbúðinni okkar við Prenzlauer Allée, mér sýnist hann liggja á dýnunni minni frekar en inni hjá sér – hugsanlega var herbergjaskipanin svona allra fyrstu dagana og við skiptum síðar. Ég held að ég hafi ekki getað sofið útréttur í hinu herberginu, sem var minna, eiginlega pínulítið – tæplega tveir sinnum tæplega tveir metrar. Þau voru að vísu jafn breið en það stærra var mjög langt – sennilega 8-9 metrar, sinnum tæplega tveir.

Mér vitanlega eru ekki til nein dokument um Nýhilkvöldin í Berlín – ég hef aldrei séð mynd eða heyrt upptöku þaðan.

Ein saga – sem tengist dokumentasjón: Þennan vetur ákvað Haukur Már einu sinni að endurfæðast sem skáld. Hann tók handritið að ljóðabókinni sem hann hafði unnið að síðustu misserin og brenndi það síðu fyrir síðu í stofunni hjá okkur, sem fylltist af reyk og þetta varð allt hálfgert kaos en með miklu harðfylgi og talsverðri þrjósku og stórum opnanlegum stofugluggum og járnruslafötu tókst honum samt að brenna allt. Svo eyddi hann skjalinu í tölvunni sinni – mundi þá að ég átti annað eins og bað mig að gera hið sama. Sem ég gerði, áður en ég tilkynnti honum að ég ætti líka útprent af handritinu sem hefði orðið eftir á Ísafirði og geisladisk sem hann hafði sent mér, með upplestrum á flestum ljóðunum í bland við hljóðabréf og upplestra á ljóðum úr Heimsendapestum (sem hann var að ritstýra þegar hann sendi mér bókina).

Sennilega er 2002 árið sem hlutir hættu að hverfa endanlega úr heiminum. Samt er svo lítið til af því í dag. Handritsútprentið fannst aldrei, svo ég muni – en ég á hljóðupptökurnar.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli