10. okt. 2016

You get hungry,
you eat hot.
Home's a cold delivery destination. 

Úr lokaerindi And the stars were shining eftir John Ashbery

Það er ósennilegt að Ashbery fái nóbelsverðlaun í vikunni. En vegna þess að það er ósennilegt er það einmitt kannski sennilegt. Ég skýt þó á að frönsku- og enskumælandi höfundar fái frí í nokkur ár.

Ég er skárri – en enn lasinn. Þarf að sinna pósti og Starafugli í dag. Og þessu (en svo tek ég mér nokkurra daga hlé frá nostalgíunni).

Saga Nýhils: Sjöunda brot brotabrots brotabrotabrots

Það er óvitlaust að hafa í huga að megi lesa úr þessum textum einhverja rómantíska afstöðu til fyrstu ára Nýhils – einsog mér þykir ljóst að megi – þá er sú glýja afar lítil í samanburði við þá sem maður burðaðist um með dagsdaglega á þessum tíma. Allir dagar voru – fyrir mér a.m.k. – einhvers konar barátta við vanmáttarkennd, sjálfsvorkunn, mikilmennskubrjálæði og upplausn hversdagsins. Sú barátta var áreiðanlega að mörgu leyti háð einmitt vegna þess að ég var frekar balanseraður annars – hún var altso viljandi, ég vildi að lífið væri í viðstöðulausu uppnámi frekar en að ég væri að reyna að rétta einhvern kúrs og komast inn á beinu brautina. Ég hafði miklu meiri áhyggjur af alræði beinu brautarinnar, en afleiðingum kaosins eða frumstæðra hvata. En svo hafði ég – merkilegt nokk – líka hálfgerða ímugust á þeirri tilhneigingu (sem ég þóttist sjá sums staðar í kringum mig; og hafa tendens til sjálfur, augljóslega) að maður félli fyrir eigin bóhemrómantík og léti það duga. Mér fannst algert skilyrði frá fyrsta degi að maður ynni fyrir pósunum. En mig sem sagt langaði að vera djöfullegur. Alveg einlæglega.

Hugmyndin að Nýhilkvöldunum kom alveg áreiðanlega frá Hauki Má. Hann hefur oft sagt að ég muni margt úr ævi sinni betur en hann – að meðtöldum minningum frá því áður en við kynntumst – en ég hugsa að þetta muni hann áreiðanlega samt betur en ég. Við skrifuðumst talsvert á fyrsta árið hans í Berlín og þá komu upp ótal hugmyndir um allar þær borgaralegu sýslur sem við ætluðum að leggja fyrir okkur þegar ég kæmi til borgarinnar. Þar var efst á blaði að stunda skylmingar. Ég er ekki viss um að við höfum gert okkur grein fyrir því að skylmingar væru ætlaðar borgarastéttinni – raunar vorum við ótrúlega bláeygir á stéttir almennt, þótt við töluðum mikið um þær. Og kannski fannst okkur ekkert eðlilegra en að við höguðum okkur einsog borgarastéttin, nú þegar við værum fluttir til borgar.

En stéttir. Útúrdúr. Þetta er allt jafn mikilvægt.

Ég man eftir því einn daginn við Prenzlauer Allée að til okkar kom iðnaðarmaður á vegum leigusalans og hvað var skrítið að hann skildi bukka sig og beygja fyrir okkur – þegar hann þá á annað borð kom upp orði af respekt – frekar en að hrækja í okkur einhverju um að við værum vonlausir aumingjar að geta ekki bjargað okkur sjálfir, einsog hefði verið sennilegri hegðun hjá íslenskum iðnaðarmanni. En sá þýski hafði komið inn, séð bækur og ályktað að hér væru háskólanemar, vitað að við vorum fyrstuleigjendur (sem er nánast einsog að eiga hús í Þýskalandi), og hugsað með sér að við værum fínimenn.

Nema hvað. Við fórum aldrei í skylmingar. Haukur Már fór hins vegar eitthvert kvöldið á stað í nágrenninu til þess að læra að dansa tangó. Ég man ekki hvort hann fór oftar en einu sinni og það skiptir í sjálfu sér ekki máli – það sem skiptir máli er staðurinn. Versuchsstation. Tilraunastöðin. Þetta var lítið rými sem Haukur uppgötvaði að hægt var að fá leigt fyrir litla sem enga peninga – og þá peninga mátti vinna sér inn með því að selja bjór af barnum (og jafnvel græða eitthvað klink ef vel gengi). Haukur skráði okkur til leiks og það fyrsta sem við gerðum, sem meðlimir Versuchsstation, var að mæta á árshátíðina – þar sem allir áttu að sýna brot úr starfsemi sinni. Af einhverjum orsökum mættum við mjög seint – eða þá ég hef bara gleymt öllu sem átti sér stað – og óundirbúnir skelltum við í upplestur á ljóði sem ég skrifaði fyrstu dagana í Berlín – Það er ekki að fara að hefjast neitt stríð – á ensku á meðan Haukur spilaði á píanó undir. Hugsanlega spilaði hann hreinlega Imagine. Það hljómar alveg ósegjanlega hallærislega að hugsa til þess; og mögulega misminnir mig, en það er sem sagt séns. Kannski var þetta það eina sem við höfðum með okkur. We Are Not About to Have a War og Imagine. Það er líka eiginlega sama lagið, bara í sitthvorri tóntegundinni.

Versuchsstation var í alvöru svona 5 mínútna gang frá heimili okkar. Rýmið var svo lítið að ég skil enn ekki hvernig fólk fór að því að dansa tangó þarna inni. Og var þess vegna alltaf fullt (og raunar alltaf vel mætt). Í Prenzlauer Berg bjó þá óhemja af kunningjum og vinum – ég held að það hafi verið okkur afsökun, frekar en að við höfum séð fyrir okkur að þeir yrðu einu gestirnir. En við sáum þá a.m.k. fyrir okkur að við gætum fengið einhverja gesti. Meðal þeirra sem þarna voru má nefna krakkana í múm – Gunna, Örvar og Kristínu Önnu (Gyða var nýhætt); myndlistarfólkið Söru Riel og Daníel Björnsson, ásamt bróður Danna (sem varð löngu síðar maðurinn hennar Söru); Kára Gylfason (sem er nú fréttamaður á RÚV); heimspekingana Davíð Kristinsson og Hjörleif Finnsson; Unu Sveinbjarnar fiðluleikara, og Freyju Gunnlaugsdóttur klarinettuleikara, Laufeyju Guðnadóttir, íslenskufræðing, Snapskokkinn Núma Thomasson og Mána bróður hans (syni Jórunnar Sigurðardóttur). Ótal fleiri áttu leið í gegn og dvöldu um skemmri eða lengri tíma, t.d. Ásthildur Valtýs (afleysingu og systur Gyðu), Svavar í Prins Póló, Sindri Sin Fang, Sölvi bróðir Núma og Mána, Lóa Hjálmtýs, Pétur Már Gunnarsson myndlistarmaður (það var annar Pétur Már sem var í Nýhil) og svo Grímur Hákonarson, sem var í námi við FAMU í Prag og datt inn tvisvar-þrisvar um veturinn. Mig rámar líka í að hafa hitt Egil Sæbjörnsson eitthvað. Ég er ekki viss um að allt þetta fólk hafi komið á Nýhilkvöld, reyndar, en flestir voru fastagestir.


Þetta var augljóslega fyrir Facebook og í staðinn fyrir event gerði maður flyera. Þarna má sjá að fyrsta Nýhilkvöldið hefur verið haldið 31. október, 2002, og það næsta 28. nóvember. Við vorum bókuð í salinn mánaðarlega. Á neðri flyernum neðst má sjá tilvísun í heimasíðu – sem er þá háskólasíða Hauks Más – og þar stendur að alvöru heimasíða sé væntanleg.

Í upphafi voru Nýhilkvöldin alls ekki ljóðakvöld eða ljóðapartí – sennilega var það Grímur sem að ýtti okkur í þá átt síðar – heldur einfaldlega listviðburðir. Það var alltaf DJ og eitthvað af upplestrum en líka sýndar stuttmyndir, tónlistaratriði og alls konar rugl. Mig minnir meira að segja að það hafi einu sinni verið live viðreynsla af sviðinu (á vegum þýsks karlmanns sem var ástfanginn af Gunna Tynes).

Engin ummæli:

Skrifa ummæli