9. sep. 2016

vakna og trumbudynsklapp fyllir herbergið eins
og dauðinn sé nýkrýndur heimsmeistari
fermingardrengja í bif-reið-a-verkst-æð-atotti
grárri slímhúð og gálgum í hrikalegum köstulum í
alpneskum tanngörðum sýgur hann tittlinginn
skorpinn á mér blóðugan og ég fæ það með
herpingi eins og ælandi formalínhrærðu gifsi og
hvítan í kúpuna þagna lygni aftur augunum dauður og
heimurinn andar léttar klappar aftur

Ljóðið „vakna“ eftir Steinar Braga úr bókinni Ljúgðu, Gosi, ljúgðu

Ég gerði mér leiðangur á Facebook í gær – á þar nokkurra daga (eða vikna) afar leynilegt erindi – og það fyrsta sem ég sá var að Andri Snær hafði níu mínútum áður spurt hvort nokkuð væri vert að kanónísera úr ljóðum fyrsta áratugarins, t.d. af verkum Nýhilskálda. Ég blandaði mér í umræðurnar með skætingi og alvöru; enda var niðurstaðan eiginlega sú að við ættum hreinlega ekki að vera að ræða þetta. Það væri beinlínis kjánalegt. Í fyrsta lagi voru næstum allir á þræðinum beinir eða óbeinir þátttakendur í þessari senu – höfðu ýmist gert tilraunir til þess að kanónísera einhver skáldanna (tekið stjörnuviðtöl og/eða skrifað lofrullur) –  eða voru einhver skáldanna eða bæði. Og svo voru allir með typpi, einsog gengur.

Saga Nýhils: fyrsta brot brotabrots brotabrotabrots. 

Nýhil var stofnað undir ljósastaur á horni Túngötu og Hofsvallargötu. Um miðja nótt. Við Haukur Már höfðum rétt lokið við að borða kvöldmat (já, um miðja nótt) sem samanstóð af hrísgrjónum og sojasósu – annað átum við varla þennan vetur, 2000-2001. Við höfðum farið út úr íbúðinni hans í kjallara við Túngötu og út á horn til að reykja. Á þessum tíma mátti reykja inni, bara ekki inni hjá Hauki Má. Nú má eiginlega hvergi reykja inni nema inni hjá Hauki Má. En það er önnur saga.

Ég man ekki hvernig það kom til – við höfðum í félagi við marga aðra verið að tala um svipaða hluti í nokkur misseri. Þetta að vera eigin herra. Að þurfa ekki að banka upp á hjá einhverjum útgáfustjórum og biðja um leyfi. Við vorum mjög fráhverfir því að biðja um leyfi. Að við þyrftum að fá leyfi. Flest þau plön komust aldrei af stað – það var haldinn einn fundur, svo ég muni, í félagi sem hét því vemmilega nafni Yrðlingur og átti að gefa út þýðingar á Wittgenstein, Ginsberg og Rimbaud og kannski eitthvað fleira. Í því batteríi voru ég, Viðar Þorsteinsson, Haukur Már, Sölvi Björn Sigurðsson og Kiddi vinur hans – sem ég man ekki hvers son er en varð síðar læknir. Önnur batterí hlutu aldrei svo mikið sem nafn.

Kannski höfðum við verið að tala um þetta inni í húsinu. Og ætluðum okkur áreiðanlega ekki að þetta væri bara útgáfufélag eða tilheyrði bókmenntunum frekar en myndlistinni eða kvikmyndalistinni eða tónlistinni. Þetta er ástæðan fyrir því að maður á að skrifa ævisögu sína strax og hún gerist. Eða í það minnsta ekki eftir svona 25 ára aldur. Af því maður gleymir öllu. Við ætluðum að gera eitthvað. Og við ákváðum að það ætti að heita Nýhil (við höfðum kannski verið að tala um Nietszche, kannski um skammtafræði og svarthol sem gáttir að einhverju öðru, einhverju nýju, frekar en bara endalaust myrkur). Svo bjuggum við til leynihandtak. Mér vitanlega erum við Haukur þeir einu sem kunna leynihandtakið.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli