14. sep. 2016

Ég fyllti baðkarið af vatni sem ég sauð á eldavélarhellunni og það kom svo mikil móða á gluggana að maður sá ekki út. Kaffið kólnaði á innan við mínútu. Við dóttir mín lögðum yfir okkur öll teppin og fötin sem við áttum. Ég ákvað að ég ætlaði að verða skáld svo ég gæti kvartað undan öllu þessu. 

Úr Garments Against Women eftir Anne Boyer. 

Ég sagði í gríni um daginn að ég væri alltaf bugað(ast)ur á miðvikudögum og síðan ég sagði það hefur það reynst rétt. Miðvikudagar eru mínir mánudagar. Á mánudögum er ég alltaf rosa spenntur að byrja vinnuvikuna – og á föstudögum er ég sækaður að ná að klára allt fyrir helgina. Miðvikudagar eru rassgat vikunnar.

 Saga Nýhils: þriðja brot brotabrots brotabrotabrots

Sennilega var það ég sem nefndi við Varða (Hallvarð Ásgeirsson) að við Haukur Már hefðum stofnað eitthvað sem héti Nýhil og ætluðum að opna heimasíðu. Ég fór með þeim Grími Hákonarsyni í gegnum Færeyjar og Noreg þegar þeir voru að gera heimildarmyndina Varði Goes Europe, sem fjallaði um böskferðalag Varða í Evrópu. Grímur borgaði miðann með Norrænu fyrir mig upp á að ég myndi lóðsa þá um Tórshavn, þar sem ég hafði búið árið áður. Sem snerist nú reyndar bara um að finna sæmilegan runna fyrir okkur til að sofa í og kynna þá fyrir nokkrum rónum – það var sumar og þetta átti að vera eins bóhemskt og það mátti verða. Við sváfum fyrst við kirkjuna og svo í almenningsgarði við hliðina á svanatjörn – seinni senan er að mig minnir í myndinni, þá spiluðum við fyrir svanina.

Sem sagt. Ég var á leiðinni til Noregs, til Tönsberg, og við fórum þarna dálítinn spöl í samfloti.  Varði og Grímur sögðu mér að þeir hefðu verið að spá í að stofna vefinn níhilismi.is – ég man ekki alveg út á hvað hann átti að ganga, Grímur var með frekar sikk kímnigáfu á þessum tíma og það var áreiðanlega eitthvað mjög smekklaust. Það var erfiðara að ganga fram af fólki árið 2001 því það voru fleiri sem lögðu sig í líma við að ganga fram af fólki og ég man ekki eftir neinum sem gekk jafn oft fram af mér og Grímur.

En við vorum auðvitað á sömu bylgjulengd – svona sirkabát – og svipuðum aldri og svipuðu kyni og svipuðum stað í lífinu einhvern veginn, allir til þess að gera nýbúnir að ákveða að við ætluðum að eyða ævinni undanbragðalaust í að búa til listaverk. Og greinilega allir eitthvað að dufla við þetta orð. Þetta hljóð, sem er stundum skrifað Nýhyl og Níhil og Níhyl, og það lá einhvern veginn beint við að álykta að níhilismi.is og Nýhil væru sitthvort afbrigðið af sama fyrirbærinu.

Og þá vorum við orðnir fjórir – fimm með Nýhil, sex með heftaranum – og enn alls óvissir hvað þetta fyrirbæri ætti að gera. 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli