24. ágú. 2016

Ég steingleymdi að skrifa nokkuð hér í gærmorgun og gleymdi því svo aftur seinnipartinn og loks í þriðja sinn nú í morgun. En hér er ég kominn og ekkert við því að gera. Það er hægt að gleyma sumu stundum en það er ekki hægt að gleyma öllu alltaf, einsog skáldið kvað.

Ég hef það stöðugt á tilfinningunni að samfélagið sem við búum í sé meira og meira að hólfast niður. Að foreldrar séu alltaf að verða betri í að fjölfalda sjálfa sig og það sé minna um stéttaflakk – eða í öllu falli of lítið um stéttaflakk. Og þá meina ég ekki úr lágstétt í miðstétt eða þannig, heldur að börn fræðimanna verði fræðimenn, börn skálda skáld, börn rútubílstjóra í mesta lagi leigubílstjórar og svo framvegis. Mér finnst einsog ég heyri varla af nýjum rithöfundi sem er ekki sonur, dóttir, frændi eða frænka einhvers annars rithöfundar – eða alinn upp í þannig umhverfi – og þá hef ég áhyggjur af hinum sem eru með rithöfundadrauma einhvers staðar á sveitabæ lengst úti í rassgati, hver hlúir að þeim? Það er ekki einsog nýliðunin í bókmenntaheiminum sé svo mikil fyrir. Og mikið held ég að bókmenntirnar verði fátæklegar ef þróunin verður sú að allir komi úr sama jarðvegi. Nógu erum við lík í stéttinni fyrir.

En kannski varðar þróunin bara veginn fyrir einhvern almennilegan pönkara. Ég er farinn að sakna íkonaklastanna – meira að segja kaldhæðnin er núorðið upbeat, uppbyggileg og vinaleg. Öll dýrin í skóginum eru vinir (nema auðvitað óvinir þeirra sem ráða miðjunni). Ég sakna þess að listin sé hættuleg.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli