22. ágú. 2016

A photo posted by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on

Ég gleymdi ekki að blogga í morgunsárið ég þurfti bara fyrst að sinna skattinum mínum. Og fara með Aino Magneu á leikskólann. Og sofa aðeins út – til hálfníu – af því við komum seint heim í gær. Vorum í útilegu/road trip um suðurfirðina. Tjölduðum í Bíldudal og skoðuðum Uppsali og Brautarholt í Selárdal, böðuðum okkur í Reykjarfirði og Birkimel, átum á Hópinu og Hótel Flókalundi, renndum út á Rauðasand og skoðuðum Skrímslasetrið á Bíldudal og Minjasafn Egils Ólafssonar á Hnjóti. Sigurvegarar ferðarinnar voru fjöllin og strendurnar á leiðinni út í Selárdal frá Bíldudal og Skrímslasetrið. Ég gerði jóga í tunglsljósinu við sjóinn á Bíldudal og hljóp svo dálítið um morguninn. Annars höfum við setið mikið í bíl og Nadja æfingaakstrað sig einsog óð væri. Það er gott að vera kominn heim þótt ég sé lúinn en það er alltof mikið að gera. Og helvítis satans túristaskipið í firðinum  – MS Koningsdam – byrjaði að blasta þokulúðurinn klukkan 7 í morgun og hefur gert á tveggja mínútna fresti alveg síðan – í samræmi við lög og reglur um skip sem lóna í þoku. Helvítis túristar.

Það hefur orðið nokkur breyting á mataræði á vegum úti með tilkomu túristanna – nú er hægt að fá ýmislegt fleira en hamborgara. En hvernig stendur á því að hamborgarinn er enn eini budget valkosturinn? Hann kostar yfirleitt helminginn af því sem allir aðrir réttir kosta. Þorskréttur á veitingastað á Íslandi á ekki að kosta það sama og hann kostar á veitingastað í Finnlandi – þar sem þorskurinn er ríflega helmingi dýrari út úr búð. Og hvers vegna er svona lítið af grænmetis- eða fiskiborgurum? Það er alveg jafn auðvelt að kaupa þá tilbúna hjá heildsölum og kjötborgarana. Svo verða nú sum bæjarfélög aðeins að fara að taka sig á í grænmetisvalkostum; á einum stað (*hóst* Patreksfirði *hóst*) gat Nadja ekkert fengið – í öllum bænum – nema pizzu eða ostaslaufu. Og hún borðar samt fisk. Ef hún hefði verið vegan hefðum við sennilega endað á að drekkja henni í höfninni til að hlífa henni við að drepast úr hungri.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli