25. ágú. 2016

Svartari í svörtu, er ég naktari.
Aðeins trúlaus er ég trúr.
Ég er þú, ef ég er ég.

(Schwärzer im Schwarz, bin ich nackter
Abtrünnig erst bin ich treu.
Ich bin du, wenn ich ich bin).

Úr Lob der Ferne (Lofsöng fjarlægðarinnar) eftir Paul Celan.

Ekki bara mundi ég eftir að byrja vinnudaginn á stuttu tilskrifelsi út í heiminn heldur tók ég upp gamlan sið – sem ég hyggst nú halda í heiðri – að byrja hverja færslu á tilvitnun. Ég hef ekki lesið nándar nærri jafn mikinn Celan og ég ætti að hafa gert – en ég keypti mér valin ljóð hans í frekar ódýrri prentun í Svíþjóð um daginn (þótt prentunin sé ódýr var bókin það reyndar alls ekki).

Í dag eru níu ár frá því að við Nadja giftum okkur í finnskum skógi. Við höfum verið með mjög óljós plön um hvað við ætluðum að gera í tilefni dagsins – sem hafa meðal annars strandað á að það þýðir sennilega ekkert að reyna að bóka gistingu neins staðar í nágrenninu á miðri túristavertíð. Við höfðum eitthvað delerað um að lána foreldrum mínum börnin en þá brá mamma sér af bæ – sem við vissum af en höfðum gleymt – og þar með féll botninn úr því plani. Eiginlega er hún eina manneskjan sem gæti tekið þau svona fyrirvaralaust og skilað þeim í skóla og leikskóla í fyrramálið.

Sennilega látum við duga að borða eitthvað (verulega) gott í kvöldmat þegar börnin eru sofnuð. Tólfréttað. Eða fáum einhvern vin til að sitja yfir þeim hérna á meðan við förum út. En það kemur allt í ljós.

24. ágú. 2016

Ég steingleymdi að skrifa nokkuð hér í gærmorgun og gleymdi því svo aftur seinnipartinn og loks í þriðja sinn nú í morgun. En hér er ég kominn og ekkert við því að gera. Það er hægt að gleyma sumu stundum en það er ekki hægt að gleyma öllu alltaf, einsog skáldið kvað.

Ég hef það stöðugt á tilfinningunni að samfélagið sem við búum í sé meira og meira að hólfast niður. Að foreldrar séu alltaf að verða betri í að fjölfalda sjálfa sig og það sé minna um stéttaflakk – eða í öllu falli of lítið um stéttaflakk. Og þá meina ég ekki úr lágstétt í miðstétt eða þannig, heldur að börn fræðimanna verði fræðimenn, börn skálda skáld, börn rútubílstjóra í mesta lagi leigubílstjórar og svo framvegis. Mér finnst einsog ég heyri varla af nýjum rithöfundi sem er ekki sonur, dóttir, frændi eða frænka einhvers annars rithöfundar – eða alinn upp í þannig umhverfi – og þá hef ég áhyggjur af hinum sem eru með rithöfundadrauma einhvers staðar á sveitabæ lengst úti í rassgati, hver hlúir að þeim? Það er ekki einsog nýliðunin í bókmenntaheiminum sé svo mikil fyrir. Og mikið held ég að bókmenntirnar verði fátæklegar ef þróunin verður sú að allir komi úr sama jarðvegi. Nógu erum við lík í stéttinni fyrir.

En kannski varðar þróunin bara veginn fyrir einhvern almennilegan pönkara. Ég er farinn að sakna íkonaklastanna – meira að segja kaldhæðnin er núorðið upbeat, uppbyggileg og vinaleg. Öll dýrin í skóginum eru vinir (nema auðvitað óvinir þeirra sem ráða miðjunni). Ég sakna þess að listin sé hættuleg.

22. ágú. 2016

A photo posted by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on

Ég gleymdi ekki að blogga í morgunsárið ég þurfti bara fyrst að sinna skattinum mínum. Og fara með Aino Magneu á leikskólann. Og sofa aðeins út – til hálfníu – af því við komum seint heim í gær. Vorum í útilegu/road trip um suðurfirðina. Tjölduðum í Bíldudal og skoðuðum Uppsali og Brautarholt í Selárdal, böðuðum okkur í Reykjarfirði og Birkimel, átum á Hópinu og Hótel Flókalundi, renndum út á Rauðasand og skoðuðum Skrímslasetrið á Bíldudal og Minjasafn Egils Ólafssonar á Hnjóti. Sigurvegarar ferðarinnar voru fjöllin og strendurnar á leiðinni út í Selárdal frá Bíldudal og Skrímslasetrið. Ég gerði jóga í tunglsljósinu við sjóinn á Bíldudal og hljóp svo dálítið um morguninn. Annars höfum við setið mikið í bíl og Nadja æfingaakstrað sig einsog óð væri. Það er gott að vera kominn heim þótt ég sé lúinn en það er alltof mikið að gera. Og helvítis satans túristaskipið í firðinum  – MS Koningsdam – byrjaði að blasta þokulúðurinn klukkan 7 í morgun og hefur gert á tveggja mínútna fresti alveg síðan – í samræmi við lög og reglur um skip sem lóna í þoku. Helvítis túristar.

Það hefur orðið nokkur breyting á mataræði á vegum úti með tilkomu túristanna – nú er hægt að fá ýmislegt fleira en hamborgara. En hvernig stendur á því að hamborgarinn er enn eini budget valkosturinn? Hann kostar yfirleitt helminginn af því sem allir aðrir réttir kosta. Þorskréttur á veitingastað á Íslandi á ekki að kosta það sama og hann kostar á veitingastað í Finnlandi – þar sem þorskurinn er ríflega helmingi dýrari út úr búð. Og hvers vegna er svona lítið af grænmetis- eða fiskiborgurum? Það er alveg jafn auðvelt að kaupa þá tilbúna hjá heildsölum og kjötborgarana. Svo verða nú sum bæjarfélög aðeins að fara að taka sig á í grænmetisvalkostum; á einum stað (*hóst* Patreksfirði *hóst*) gat Nadja ekkert fengið – í öllum bænum – nema pizzu eða ostaslaufu. Og hún borðar samt fisk. Ef hún hefði verið vegan hefðum við sennilega endað á að drekkja henni í höfninni til að hlífa henni við að drepast úr hungri.

19. ágú. 2016

Í dag er fjórði dagur í endurreisn þessarar dagbókar; sá þriðji var fall, í gær gleymdi ég einfaldlega að þessi staður tilverunnar væri til og skrifaði ekki orð. Það er heiðskírt á Ísafirði og ég fór með Aino á leikskólann – grunnskólinn byrjar ekki fyrren eftir helgi svo Aram Nói er að þvælast hérna í reiðileysi. Í gær fór ég á hryllingsmynd í bíó – mér brá nokkrum sinnum. Þegar ég kom heim stóð Nadja með straujárnið í stofunni og sagðist vera að velta því fyrir sér hvort hún fengi nokkurn tíma nógan tíma og næði til að strauja jafn mikið hana langaði. Ég spurði hana hvort hún gerði sér grein fyrir því hvað hún hefði verið að segja – og hvort þetta væri hugsanlega fyrstaheimsvandamál allra fyrstaheimsvandamála – og þá fékk hún dálítið hláturskast.

Ég er kominn hálfa leið í gegnum Paradise City – fimmta lagið á Appetite. Og að verða búinn að negla fyrra sólóið í Welcome – löngu búinn að negla það síðara. Og sólóið í Nightrain. Þetta er rosaleg plata.

17. ágú. 2016

Það kom nýr dagur og ég gleymdi því að ég ætlaði að byrja daginn á að blogga. Þetta átti að verða nýi vaninn minn. Í dag byrjaði ég hins vegar daginn á að flytja skrifstofuna mína úr svefnherberginu yfir í gestaherbergið; strax og gestirnir voru lagðir af stað til Reykjavíkur. Það er ólíft í bílskúrnum fyrir sagga og myglu og ólykt – ég hef hugsað mér að byrja að takast á við það næsta mánudagsmorgun og því lýkur sjálfsagt ekki fyrren í fyrsta lagi fyrir jól. Ég þarf að byrja á því að taka til og gera pláss svo ég geti rifið niður innveggina; svo þarf ég að koma fyrir alla leka á veggjunum, reisa nýja innveggi og millivegg, loka niðurfalli, flota gólfið, laga loftræstingu og líta undir baðherbergið í horni skúrsins (það er óttalegt skítmix frá fyrri eigendum, sturtan lekur og svona – kannski er þetta í lagi þarna undir og kannski ekki).

Í gær ætluðum við út að borða. Reyndum að bóka borð á Tjöruhúsinu og Hótelinu (Við Pollinn) en þar var allt uppbókað fram eftir kvöldi og við vorum með krakkaskarann. Í sjálfu sér var nóg pláss á Við Pollinn en það ku hafa verið skortur á kokkum í eldhúsinu. Við reyndum ekki einu sinni við Húsið – átta saman, þar er ekki nóg af borðum. Settumst á Edinborg, sem var pakkað, og fengum ágætis mat. En ef fer sem horfir þarf augljóslega að bæta eitthvað í flóruna hérna yfir sumarmánuðina. Það er eitthvað fullkomlega absúrd við að maður geti hugsanlega hvergi fengið mat nema á Hamraborg og Thai Koon – á venjulegu þriðjudagskvöldi (og raunar kemur Thai Koon ekki til greina því þau eru nærri því aldrei með grænmetisfæði eða fisk, og Nadja borðar ekki kjöt).

Altso helvítis túristar (helmingur okkar – gestirnir – var reyndar túristar). Svo pissar þetta og skítur út um allt og lætur björgunarsveitir sækja sig sokkalaust upp á heiðar.

En nú þarf ég að fara að vinna.

16. ágú. 2016

Það er góður vani að byrja hvern vinnudag á því að skrifa nokkrar línur í dagbókina sína. Nú er klukkan orðin hálffjögur á þriðjudegi og ég hef ekki skrifað staf hér inn í rúma viku. Samt hefur vinnan gengið vel og lífsnautnin jafnvel enn betur. Ég hef farið í göngutúr í Skálavík og keyrt kræklóttann fjallastíg upp á Bolafjall í svartaþoku, rennt mér í vatnsrennibrautum og hangið í heitum pottum, barist við kríur á Þuríðarbraut, haldið stóra plokkfiskveislu fyrir vini og kunningja, bröns fyrir bróður minn og fjölskyldu, farið á Ríkharð III á Suðureyri, spjallað við Gerði Kristnýju á dyraþrepinu hjá mér, lært að spila sólóið í Nightrain með Guns N'Roses, lesið ljóð Daivu Cepauskaitu, farið út að hlaupa, gert jóga, eldað pizzur ofan í tvær barnafjölskyldur, unnið í Ljóðum um samfélagsleg málefni, þýðingunni á Vitsvit eftir Athenu Farrokhzad, endurreist Starafugl og hjólað út í Hnífsdal. Já og svo fór ég til læknis sem lét athuga í mér blóðið og ég er mjög hress, nema honum finnst ég ekki drekka nóg. Samt var ég með snert af þynnku í blóðprufunni – eftir plokkfiskveisluna kvöldið áður. En nú er best ég hætti svo ég hafi frá einhverju að segja á morgun líka.

8. ágú. 2016

Ísafjörður. Það var ekki til neinn kúrbítur í Samkaup í dag. Ég hef ekki verið heima hjá mér síðan í maí og stundum er ekki heldur til kúrbítur í útlöndum. Ég er annars dálítið slappur – líklega hefur keyrslan verið heldur hörð síðustu vikurnar. Ég var mest í Svíþjóð en líka í Finnlandi, Frakklandi, Grikklandi, Tyrklandi og Þýskalandi. Ég hef ekki komist út að hlaupa eins oft og ég hefði viljað, ekki gert jóga eins oft og manni er hollt og kannski reykt fullmargar sígarettur og drukkið fullmarga bjóra. Ofan í þetta er svo talsvert vinnuálag að flytja svona með sér vinnuna alltaf. Og mér er farið að leiðast óhemju mikið að ferðast. Hér er staðan sú að ég hef dæmt bílskúrinn óhæfan til íveru sökum loftgæða og veggjamyglu. Og ég hef skrifað verktaka til að láta gera tilboð í viðgerðir. Í millitíðinni þarf ég að vinna inni á heimilinu og hugsanlega eitthvað úti í bæ á þegar við fáum gesti síðar í vikunni. Eiginlega þyrfti ég samt líka að fá að pústa og hætta að vera lasinn og koma mér í einhvers konar ásættanlegt ásigkomulag. Ef til þess gefst tími eða næði. Tölvan mín er verr á sig komin en ég. Hún er lúnari og hefur áreiðanlega farið verr með sig. Það er bara þannig sem þetta er. Ég fann að lokum kúrbít í Bónus. Og halloumi. Og pantaði smurningu fyrir bílinn. Nú þarf ég bara að panta mér uppskurð uppi á spítala til að losna loksins við helvítis botnlangann.