16. sep. 2016

Before I got my eye put out
I liked as well to see –
As other Creatures, that have Eyes
And know no other way – 
But were it told to me – Today –
That I might have the sky
For mine – I tell you that my Heart
Would split, for size of me – 
The Meadows – mine –
The Mountains – mine –
All Forests – Stintless Stars –
As much of Noon as I could take
Between my finite eyes –

Úr ljóði 327 eftir Emily Dickinson.

Og nú kemur helgin. Mér var einhvern tíma sagt að ætlaði maður að stunda hugleiðslu þá þyrfti maður að hafa í senn sterka jarðtengingu og hausinn í skýjunum. Maður þyrfti að standa á fótunum og streyma upp úr sjálfum sér, upp úr hvirflinum, og treysta því að maður þeyttist ekki bara út í geiminn. 

Ég er að reyna að finna titil á bókina mína. Ljóðabókina mína. Sem kemur á næsta ári. Undirtitillinn er – Ljóð um samfélagsleg málefni. Vantar herslumuninn. 

15. sep. 2016

Reality is a sound, you have to tune into it, not just keep yelling.  
(Raunveruleikinn er hljóð, maður verður að stilla sig inn á hann, í stað þess að öskra bara)

Úr The Autobiography of Red eftir Anne Carson

Mér miðar ágætlega með vegginn í bílskúrnum. Og horfir í að ég geti farið að snúa mér að næsta verkefni. Ég fékk Hemma Þorsteins til að skoða hjá mér eldhúsið og honum finnst sennilegt að það sé mygla undir eldhúsinnréttingunni – í öllu falli er timbrið blautt þarna undir. Hugsanlega er einhver leki sem við höfum ekki séð – en eiginlega er sennilegast að bleytan sé bara þarna ennþá eftir vatnsskemmdirnar síðasta haust. Það liggur þá fyrir að rífa upp alla innréttinguna og fjarlægja skemmdirnar undir henni. Mig svimar við þær framkvæmdir, svona satt best að segja. Og að vera eldhúslaus í heila viku, minnst. Ætli sé samt ekki best að byrja bara á mánudag. Þá næ ég a.m.k. að klára vegginn á helginni. En svo er auðvitað engin trygging fyrir því að neitt af því sem maður gerir geri nokkuð gagn. Þessi gró komast út um allt, skilst mér; en einhvers staðar verður maður að hefja þetta stríð. 

Saga Nýhils: fjórða brot brotabrots brotabrotabrots

Það er hætt við að ég muni illa í hvaða röð hlutirnir gerðust. Á þessum tíma – áður en ég stakk af til Þrándheims og svo síðar Helsinki, veturinn 2001-2002 – umgekkst ég fólk sem síðar átti eftir að vera í Nýhil eða tengjast félagsskapnum á einn eða annan hátt (það var aldrei neitt félagatal; og því var viljandi haldið galopnu hverjir væru í Nýhil). Við Bjarni Klemenz tókum góða rispu í að rífast um hvor okkar væri meira bóhem og sennilega var það um þetta leyti sem hann átti í ástarsambandi við Þórdísi Björnsdóttur, sem ég kynntist þá sennilega í gegnum hann. Pétur Már – síðar trommari í Skátum og víðar – var vinur Mella vinar míns og eitthvað að dufla við skáldskap (einsog reyndar Melli). Viðar Þorsteinsson átti heima í næstu götu við mig – í kjallaranum hjá foreldrum sínum og ég var stundum boðinn í mat, sérstaklega þegar þeir feðgarnir voru einir heima. Steinar hitti ég einu sinni á bar þar sem ég var að selja ljósritaðar smásögur – ég fór á hnén, bukkaði mig og beygði fyrir þekktasta götuskáldinu sem ég þekkti. Seldi honum bækur en ég held við höfum lítið talað saman. Stína (Kristín Eiríksdóttir) – sem ég kynntist á IRC-inu sirka 1996, þegar ég var átján og hún líklega fimmtán – var með Hauki Má í hálfan vetur eða svo. Viðar Örn Sævarsson – sem síðar var í alls konar hljómsveitum og flutti svo til Danmerkur – var líka þarna einhvers staðar. Nema það hafi verið síðar. Við Sölvi Björn áttum talsvert mikið samneyti – unnum saman í Bókabúð Máls og menningar og komum okkur upp þeim furðulega óvana að tjalda í stofunni heima hjá honum á háskólagörðum eftir langar nætur að sumbli. Í gegnum hann kynntist ég Sigga „fáfnisbana“ Ólafssyni – sem nú er verkefnastjóri í Norræna húsinu. Þeir Sölvi höfðu gefið út bókmenntatímarit saman þegar þeir voru í menntaskóla – það hét Blóðberg, að mig minnir, og þar voru viðtöl við alls konar stórbokka í íslenskum bókmenntum. Svona grand old men. Og svo var Kiddi vinur Sölva eitthvað að þýða með honum úr frönsku – en ég man enn ekki hvers son hann var. Kristinn Tómas – reyndi ég að gúgla, en það virðist vera einhver annar. 

En ég man ekki til þess að hafa ámálgað Nýhil við neitt af þessu fólki – þótt það sé í sjálfu sér ekkert ósennilegt. Enda var ennþá meira en ár í að Nýhil „gerði“ nokkuð sem setjandi væri stimpil á. 

14. sep. 2016

Ég fyllti baðkarið af vatni sem ég sauð á eldavélarhellunni og það kom svo mikil móða á gluggana að maður sá ekki út. Kaffið kólnaði á innan við mínútu. Við dóttir mín lögðum yfir okkur öll teppin og fötin sem við áttum. Ég ákvað að ég ætlaði að verða skáld svo ég gæti kvartað undan öllu þessu. 

Úr Garments Against Women eftir Anne Boyer. 

Ég sagði í gríni um daginn að ég væri alltaf bugað(ast)ur á miðvikudögum og síðan ég sagði það hefur það reynst rétt. Miðvikudagar eru mínir mánudagar. Á mánudögum er ég alltaf rosa spenntur að byrja vinnuvikuna – og á föstudögum er ég sækaður að ná að klára allt fyrir helgina. Miðvikudagar eru rassgat vikunnar.

 Saga Nýhils: þriðja brot brotabrots brotabrotabrots

Sennilega var það ég sem nefndi við Varða (Hallvarð Ásgeirsson) að við Haukur Már hefðum stofnað eitthvað sem héti Nýhil og ætluðum að opna heimasíðu. Ég fór með þeim Grími Hákonarsyni í gegnum Færeyjar og Noreg þegar þeir voru að gera heimildarmyndina Varði Goes Europe, sem fjallaði um böskferðalag Varða í Evrópu. Grímur borgaði miðann með Norrænu fyrir mig upp á að ég myndi lóðsa þá um Tórshavn, þar sem ég hafði búið árið áður. Sem snerist nú reyndar bara um að finna sæmilegan runna fyrir okkur til að sofa í og kynna þá fyrir nokkrum rónum – það var sumar og þetta átti að vera eins bóhemskt og það mátti verða. Við sváfum fyrst við kirkjuna og svo í almenningsgarði við hliðina á svanatjörn – seinni senan er að mig minnir í myndinni, þá spiluðum við fyrir svanina.

Sem sagt. Ég var á leiðinni til Noregs, til Tönsberg, og við fórum þarna dálítinn spöl í samfloti.  Varði og Grímur sögðu mér að þeir hefðu verið að spá í að stofna vefinn níhilismi.is – ég man ekki alveg út á hvað hann átti að ganga, Grímur var með frekar sikk kímnigáfu á þessum tíma og það var áreiðanlega eitthvað mjög smekklaust. Það var erfiðara að ganga fram af fólki árið 2001 því það voru fleiri sem lögðu sig í líma við að ganga fram af fólki og ég man ekki eftir neinum sem gekk jafn oft fram af mér og Grímur.

En við vorum auðvitað á sömu bylgjulengd – svona sirkabát – og svipuðum aldri og svipuðu kyni og svipuðum stað í lífinu einhvern veginn, allir til þess að gera nýbúnir að ákveða að við ætluðum að eyða ævinni undanbragðalaust í að búa til listaverk. Og greinilega allir eitthvað að dufla við þetta orð. Þetta hljóð, sem er stundum skrifað Nýhyl og Níhil og Níhyl, og það lá einhvern veginn beint við að álykta að níhilismi.is og Nýhil væru sitthvort afbrigðið af sama fyrirbærinu.

Og þá vorum við orðnir fjórir – fimm með Nýhil, sex með heftaranum – og enn alls óvissir hvað þetta fyrirbæri ætti að gera. 

13. sep. 2016

Stjörnurnar dvína
og verðlauna mig ekki
einu sinni þegar ég vinn. 
Það er hægt
að skjóta mann
í sjálfsvörn
og taka samt eftir því
hvernig rautt blóð hans
prýðir snjóinn. 

Audre Lorde – Aðskilnaður

Ég gleymdi að birta ljóð í gær. Gleymdi að vitna í ljóð. Það var alger skylda. En ég brást. Einsog maður bregst. 

Í gær var matarboð. Sænska ljóðskáldið Jenny Tunedal var í bænum ásamt tveimur vinkonum sínum – og auk þeirra bauð ég tveimur listamönnum úr residensíunni hennar Elísabetar Gunnars, franskri myndlistarkonu og hollenskum víóluleikara, og auðvitað Elísabetu sjálfri. Ég gaf þeim hefðbundið íslenskt myntukúskús með halloumi. Og fleiri vínflöskur en nokkrum er hollt að innbyrða á mánudegi. 

Eftir vinnu í dag ætla ég að halda áfram að byggja vegginn í bílskúrnum. Og á morgun held ég áfram að segja sögu Nýhils, ef ég man hvað gerðist næst eftir að ég keypti heftarann óspjallaða. 

12. sep. 2016

Ég er að reisa vegg. Mér finnst talsvert til mín koma að ég skuli reisa vegg. Ég hef ekkert smíðað síðan í grunnskóla. Og nú nýt ég þess augljóslega að litli bróðir minn er smiður og á heima í næsta húsi – bæði upp á allar leiðbeiningar að gera en ekki síður að fá lánuð verkfæri.

En hvað um það. Áfram með smjörið.

Saga Nýhils: annað brot brotabrots brotabrotabrots


Þetta er heftarinn. Hann keypti ég í Eymundsson á Austurstræti, nema ég hafi keypt hann í BMM á Laugavegi 18. Hlutverk hans var og er að framleiða bækur. Við Haukur Már höfðum áður framleitt bækur sjálfir – við fjölrituðum þær á ónefndum vinnustað þar sem annar okkar hafði lyklavöld, brutum saman og heftuðum frá miðnætti og fram í morgunsárið, áður en annað fólk mætti til vinnu. Þetta finnst mér til fyrirmyndar, þótt þetta hafi verið óvart – eða vegna þess að það hentaði – því auðvitað eru bókmenntir og bókaútgáfa myrkraverk. Það gerist ekkert á daginn nema föndur og saklaust grín. Þessar bækur sem við fjölrituðum á ónefnda vinnustaðnum seldum við síðan við Laugaveg. Við tókum með okkur tóman ölkassa, skiptumst á að standa uppi á honum og lesa hátt og snjallt á meðan hinn seldi. Ég man eftir að hafa orðið alveg gersamlega yfir mig fornermaður þegar Sigurður Pálsson strunsaði hjá án þess að einu sinni virða okkur viðlits. 

En svo misstum við aðgang að þessum ónefnda vinnustað og þá voru góð ráð dýr. Sérílagi í ljósi þess að nú vorum við búnir að stofna forlag, búnir að stofna listaverkaverksmiðju. Ég man ekki hvað heftarinn kostaði en það var sennilega á við um tvö kvöld á barnum. Ég gekk lengi um gólf inni í búðinni – horfði á Hauk og spurði aftur og aftur hvort ég ætti í alvöru að láta af þessu verða – og sveið svo í veskið lengi á eftir. Ég var hrikalega blankur. Þennan vetur seldi ég alla geisladiskana mína í einhverri safnarabúð – aðallega fyrir mat og sígarettum en líka fyrir leigu á geymslunni sem ég bjó í við Hringbraut. Þar borgaði ég 10 þúsund – um það bil þrjú kvöld á barnum. 

Það mátti redda prentun. Það voru prentarar á Þjóðarbókhlöðunni og hér og þar. Og þótt það væri kannski ekki hægt að prenta hundrað eintök í einu væri gerlegt að prenta nóg í prívatprentara til að setja í poka og selja á einu kvöldi á Næsta bar. En nógu stórir heftarar til þess að þá mætti nota til að hefta í kjöl voru ekki á hverju strái – þeir voru beinlínis sjaldséðir utan prófessjónal skrifstofuumhverfis. Þessi heftari átti að tryggja stöðu okkar í skáldskaparheiminum, hann átti að tryggja sjálfstæði okkar gagnvart kapítalinu og hann var einhvers konar tákn um stefnufestuna – að maður skyldi eyða peningunum sínum í annað eins rugl tæki, þegar maður átti ekki einu sinni fyrir mat. 

Heftarinn, sem er úti í bílskúr og hefur meira og minna fylgt mér, hefur – mér vitanlega – aldrei verið notaður til þess að hefta meira en tvö blöð saman á horninu. Samt finnst mér alltaf einsog hann hafi þjónað tilgangi sínum. Svona einsog netið undir loftfimleikamanni er ekki gagnslaust þótt hann hafi aldrei dottið í það. Það kannski kemur að því. 

9. sep. 2016

vakna og trumbudynsklapp fyllir herbergið eins
og dauðinn sé nýkrýndur heimsmeistari
fermingardrengja í bif-reið-a-verkst-æð-atotti
grárri slímhúð og gálgum í hrikalegum köstulum í
alpneskum tanngörðum sýgur hann tittlinginn
skorpinn á mér blóðugan og ég fæ það með
herpingi eins og ælandi formalínhrærðu gifsi og
hvítan í kúpuna þagna lygni aftur augunum dauður og
heimurinn andar léttar klappar aftur

Ljóðið „vakna“ eftir Steinar Braga úr bókinni Ljúgðu, Gosi, ljúgðu

Ég gerði mér leiðangur á Facebook í gær – á þar nokkurra daga (eða vikna) afar leynilegt erindi – og það fyrsta sem ég sá var að Andri Snær hafði níu mínútum áður spurt hvort nokkuð væri vert að kanónísera úr ljóðum fyrsta áratugarins, t.d. af verkum Nýhilskálda. Ég blandaði mér í umræðurnar með skætingi og alvöru; enda var niðurstaðan eiginlega sú að við ættum hreinlega ekki að vera að ræða þetta. Það væri beinlínis kjánalegt. Í fyrsta lagi voru næstum allir á þræðinum beinir eða óbeinir þátttakendur í þessari senu – höfðu ýmist gert tilraunir til þess að kanónísera einhver skáldanna (tekið stjörnuviðtöl og/eða skrifað lofrullur) –  eða voru einhver skáldanna eða bæði. Og svo voru allir með typpi, einsog gengur.

Saga Nýhils: fyrsta brot brotabrots brotabrotabrots. 

Nýhil var stofnað undir ljósastaur á horni Túngötu og Hofsvallargötu. Um miðja nótt. Við Haukur Már höfðum rétt lokið við að borða kvöldmat (já, um miðja nótt) sem samanstóð af hrísgrjónum og sojasósu – annað átum við varla þennan vetur, 2000-2001. Við höfðum farið út úr íbúðinni hans í kjallara við Túngötu og út á horn til að reykja. Á þessum tíma mátti reykja inni, bara ekki inni hjá Hauki Má. Nú má eiginlega hvergi reykja inni nema inni hjá Hauki Má. En það er önnur saga.

Ég man ekki hvernig það kom til – við höfðum í félagi við marga aðra verið að tala um svipaða hluti í nokkur misseri. Þetta að vera eigin herra. Að þurfa ekki að banka upp á hjá einhverjum útgáfustjórum og biðja um leyfi. Við vorum mjög fráhverfir því að biðja um leyfi. Að við þyrftum að fá leyfi. Flest þau plön komust aldrei af stað – það var haldinn einn fundur, svo ég muni, í félagi sem hét því vemmilega nafni Yrðlingur og átti að gefa út þýðingar á Wittgenstein, Ginsberg og Rimbaud og kannski eitthvað fleira. Í því batteríi voru ég, Viðar Þorsteinsson, Haukur Már, Sölvi Björn Sigurðsson og Kiddi vinur hans – sem ég man ekki hvers son er en varð síðar læknir. Önnur batterí hlutu aldrei svo mikið sem nafn.

Kannski höfðum við verið að tala um þetta inni í húsinu. Og ætluðum okkur áreiðanlega ekki að þetta væri bara útgáfufélag eða tilheyrði bókmenntunum frekar en myndlistinni eða kvikmyndalistinni eða tónlistinni. Þetta er ástæðan fyrir því að maður á að skrifa ævisögu sína strax og hún gerist. Eða í það minnsta ekki eftir svona 25 ára aldur. Af því maður gleymir öllu. Við ætluðum að gera eitthvað. Og við ákváðum að það ætti að heita Nýhil (við höfðum kannski verið að tala um Nietszche, kannski um skammtafræði og svarthol sem gáttir að einhverju öðru, einhverju nýju, frekar en bara endalaust myrkur). Svo bjuggum við til leynihandtak. Mér vitanlega erum við Haukur þeir einu sem kunna leynihandtakið.

8. sep. 2016

A kind of numbness fills your heart and mine,
A gap where things and people once had been.
We fell unloved, like frozen fields of snow
Upon which not a track has broken through.
The robin and the thrush have taken wing.
The sparrow stays. He sings a dismal song
And eats the seed uncovered in the snow.
An ugly bird, call him the hearts agony.
His songs of disbelief will fill our hearts
As long as winter lasts, as long as we
Are distant partners of this agony
To far apart to keep each other warm
So let our hearts lie dead like fields of snow
Unloved, untouched until the distant spring
Grows closer and the gentle birds return
And fill the empty air, and sing. 

Úr Sonnet for the beginning of winter eftir Jack Spicer

Það vetrar. Sennilega verður það ekki umflúið. Ég yrði í það minnsta hissa ef svo reyndist. Og skelfingu lostinn. En maður veit aldrei. Mér skilst að náttúran sé öll í einhverju uppnámi. Eftir allt sem við höfum gert fyrir hana.

Svo er bölvað ólag á öndunarfærunum í mér. Líklega er ég með eitthvað mygluofnæmi – og þá mygla í déskotans húsinu. Þetta hefur mig grunað um nokkurt skeið og gert eitt og annað til þess að fá það staðfest en enn ekkert gengið til eða frá. Þessa vikuna hef ég gert ítrekaðar tilraunir til þess að kaupa myglupróf í Húsasmiðjunni – þar sem er annars aldrei neitt til. En þeir lofuðu að panta fyrir mig, það hefur bara ekki gengið mjög greiðlega. Vonandi verða þau komin á morgun. Verst er að þá þarf ég helst að vita hvar myglan er og þótt ég hafi einhverjar hugmyndir eru þær alls ekki rock solid.

Ólagið á öndunarfærunum lýsir sér í munnþurrki, hálsþurrki, málm- eða moldarbragði í munni, og mildum verkjum í lungum og hálsi. Þegar ég fer út að hlaupa eru fyrstu 2 kílómetrarnir slæmir en restin alltílagi – og mér finnst einsog hlaupin geri þetta skárra í heildina. Ég er að mestu laus við óþægindin á meðan ég er að elda á fullu og þar til svona 10-15 mínútum eftir að ég borða. Sem gerir það mjög freistandi að elda bara og éta linnulaust. Þetta truflar mig ekki í svefni og ekki þegar ég vakna fyrren ég kem niður á neðri hæðina. Og augljóslega finn ég lítið fyrir þessu þegar ég fer úr húsi.

Það skringilegasta við að lýsa þessum veikindum mínum er að að öðru leyti er ég mjög hress. Þetta dregur mig ekki tiltakanlega mikið niður og ég er annars í nákvæmlega jafn góðu formi og ég nenni. En þetta er rosa nojuvekjandi. Stundum hrekk ég upp um nætur handviss um að ég sé með krabbamein. Ég ræddi þetta við lækni á dögunum og hann taldi víst að ég væri með vægt ofnæmi – hugsanlega fyrir myglu – sem væri engin ástæða til að medikera, en ráðlagði mér að fylgjast með því hvar ég væri verstur. Mér finnst samt óþægilegt að hafa það ekki staðfest – svo virðist þetta líka vera að versna.